Í hópastarfi starfa börn og kennarar saman í litlum hópum og læra þannig tillitssemi og að virða skoðanir annarra. Það hvað þau eru öll ólík og hafa mismunandi skoðanir en sameinast þó við að skapa/vinna saman, styrkir sjálfsmynd þeirra og fordómaleysi.
Megin tilgangur og markmið með hópastarfi er að börnin læri að vinna og leika sér í hóp og taka tillit til hvers annars. Í gegnum hópastarfið stuðlum við að samheldni og ábyrgðarkennd barnanna gagnvart hverju öðru og tengslamyndum þeirra við jafnaldra sína. Börnin læra smátt og smátt að vinna út frá ákveðnum fyrirmælum sem er góður grunnur fyrir grunskólann síðar. Með hópastarfinu getur hver hópstjóri fylgst náið með sínum hópi, þroska og framförum hvers barns fyrir sig.
Í hópastarfinu er börnunum skipt í hópa eftir aldri. Í hverjum hóp eru 6-8 börn og einn hópstjóri. Hvað tekið er fyrir hverju sinni ræðst af hugmyndum og áhuga barnanna, því það er ferlið sem er mikilvægast, tíminn og aðferðirnar sem fara í verkið, ekki útkoman. Börnin eru oftast nær mjög dugleg að taka þátt í því sem verið er að gera eru hvött til að viðra hugmyndir sínar. Hver hópur velur í upphafi nafn á sinn hóp. Hópstjóri skráir hugmyndir niður og aðstoðar við val á nafni.
Gott hefur reynst að vinna með sama þemað í einhvern tíma til að börnin öðlist meiri skilning á viðfangsefninu. Með hugtakinu þema er átt við ákveðna áætlanagerð eða ramma. Þar er ákveðið viðfangsefni tekið fyrir, ákveðið efni sem vekur áhuga barnanna og tekur tillit til þroska þeirra og þarfa og þar með er góður grundvöllur lagður að þroskamiðuðu námi barnanna. Þessi rammi er frekar stór og inni í honum er allt milli himins og jarðar.
Aðalatriðið er að vinna saman í hóp og hafa gaman.