Einkunnarorð: Hugur, hönd og heimabyggð.
Skólastefna Grýtubakkahrepps nær til Leikskólans Krummafótar og Grenivíkurskóla.
Lög, reglugerðir og aðalnámskrár eru grundvöllur stefnu um skólastarf ásamt ákvörðunum sveitarstjórnar. Hvor skóli getur markað eigin skólastefnu í samræmi við stefnu sveitarfélagsins en hefur að öðru leyti frjálsar hendur um skipulag og framkvæmd skólastarfs.
Framtíðarsýn
Skólar Grýtubakkahrepps verði framsæknir þar sem nemendur öðlist þroska til góðra verka. Með bókvit, verksvit og siðvit að leiðarljósi fái sérhver nemandi hvatningu til náms við sitt hæfi. Jafnframt verði skólaganga nemenda heildstæð og skólastig tengist saman.
Skólar Grýtubakkahrepps skapi, í samstarfi við heimilin, kjörumhverfi til náms með hvetjandi starfsumhverfi, hæfileikaríku starfsfólki og virkum tengslum við samfélagið.
Með þessari stefnumörkun leggur Grýtubakkahreppur áherslu á eftirfarandi:
Nemendur
Að nemendum líði vel í skólum sveitarfélagsins. Andleg og líkamleg vellíðan
barns er grundvöllur að árangri þess innan skólanna og þar af leiðandi grundvöllur að
starfsemi þeirra. Taka þarf mið af þörfum hvers barns og aðstoða það til aukins þroska á þess eigin forsendum. Allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms óháð líkamlegum og andlegri getu og þroska. Nemendur geri kröfur til sín í námi og samskiptum og séu jafnframt meðvitaðir um ábyrgð sína og skyldur innan skólasamfélagsins.
Starfsfólk
Skólar sveitarfélagsins skulu leitast við að skapa starfsmönnum eins gott starfsumhverfi og völ er á. Starfsmenn hafi fagmenntun og kost á viðbótarmenntun. Að kynjahlutfallið sé sem jafnast og starfsandi góður. Að skólarnir séu eftisóttir vinnustaðir fyrir starfsfólki sem hefur gæði skólastarfsins að leiðarljósi.
Aðbúnaður og umhverfi
Aðstæða nemenda og starfsfólks til náms og kennslu skal vera fullnægandi miðað við nútíma kröfur. Öllum börnum í sveitarfélaginu skal tryggður jafn aðgangur að góðri og fjölbreyttri aðstöðu í öruggu starfsumhverfi. Skólarnir og umhverfi þeirra skulu vera öruggur vettvangur nemenda við leik og nám. Öryggi barna á leið í og úr skóla skal tryggt eins og kostur er, hvort heldur sem börn ferðast með skólabíl eða gangandi, með eða án fylgdar foreldra. Horft skal til sérstöðu sveitarfélagsins í tengslum við útinám og umhverfismennt. Jafnframt skulu skólarnir stuðla að heilbrigðum lífsvenjum nemenda.
Samfélagið
Áhersla lögð á góð tengsl við samfélagið og atvinnulífið til að byggja upp jákvæða samfélagsvitund nemenda. Hlutverk sveitarfélagsins er að tryggja skólum þjónustu á ýmsum sviðum auk þess að tryggja þeim nægilegt fjármagn til rekstrar og þróunar.
Heimili og skóli
Áhersla skal lögð á öflugt samstarf milli heimila og skóla þar sem sérþekking foreldra á börnum sínum og sérþekking starfsfólks á skólaumhverfinu fléttast saman. Jafnframt að samskipti heimila og skóla byggist á gagnkvæmu upplýsingastreymi, trausti og virðingu. Einnig skal heimilum gefinn kostur á, og þau hvött til, að taka sem virkastan þátt í öllu mótunarstarfi skólanna og stuðla þannig að sem bestri framþróun þeirra.