Varðandi veikindi leikskólabarna og lyfjagjafir
Vegna fyrirspurna um það, hvenær þau börn megi sækja leikskóla, sem eruveik eða á einhvern hátt sýkt, þá mæla heimilislæknar með eftirfarandi:
Barn með hækkaðan líkamshita (38° eða hærra við endaþarmsmælingu), verki eða slen af einhverjum orsökum ætti ekki undir neinum kringumstæðum að dveljast í leikskóla. Ástæður þeirra ráðlegginga eru fyrst og fremst viðleitni til að draga úr vanlíðan barnsins, sem í leikskólanum verður fyrir mun meira álagi en heima og nýtur ekki sömu umönnunar og hjá foreldrum. Líkamshiti upp að 38° þarf ekki að benda til sjúkleika, en sé um vanlíðan að ræða, ber að hlífa barninu við álagi leikskóladvalar.
Barn smitar mest þegar það er að veikjast og veikt barn skal dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í a.m.k. 1-2 sólarhringa og endurheimt þrótt sinn. Þegar barnið kemur aftur í leikskólann eftir veikindi getur það í undantekningartilvikum fengið að vera inni í 1-2 daga.
Barn með augljóst smit ætti ekki að sækja leikskóla (en þó verður að gera undantekningu á saklausum kvefpestum, sem aldrei verður hægt að forðast). Þetta gildir um bakteríusýkingar, sem berast manna á milli (streptokokkahálsbólga, skarlatssótt, sumar lungnasýkingar, sýkt og opin húðsár og niðurgang af bakteríuvöldum), þar til sýklalyfjameðferð hefur staðið í a.m.k. einn sólarhring. Flestar veirusýkingar (kvef, magapest með uppköstum og/eða niðurgangi, inflúenza, útbrotapestir aðrar en skarlatssótt) eru smitandi í a.m.k. viku, nema einkenni séu um garð gengin fyrr. Þess má geta, að augnrennsli og stýrur í augum eru í fæstum tilvikum neitt alvarlegri en hor í nös og lagast venjulega án meðferðar, nema um roða í hvítu eða þrútin augnlok sé að ræða. Í vafatilfellum ættu foreldrar að ráðfæra sig við lækni sinn.
Greinist njálgur eða kláðamaur hjá barni, ætti öll fjölskyldan að fá meðferð samtímis, sem oftast er aðeins beitt í eitt skipti en stundum þó endurtekin eftir viku. Daginn eftir meðferð er smithættan hjá liðin og barnið má aftur fara í leikskólann. Séu tilfellin í leikskólanum fleiri, er ástæða til að aðrir foreldrar leiti að þessum sníkjudýrum hjá börnum sínum.
Lyfjagjafir á leikskólatíma ættu í flestum tilfellum að vera óþarfar, því aðeins í undantekningartilvikum þarf að gefa lyf oftar en 3svar á dag og þó að lyfið þurfi að gefa þrisvar, þá skiptir ekki máli þótt rúmir 8 tímar líði á milli gjafa. Undantekningar á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni. Í slíkum tilvikum er ráðlegt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni til að sýna leikskólastarfsmönnum.
F.h. heilsugæslulækna á Akureyri
Pétur Pétursson yfirlæknir