Við bjóðum ykkur velkomin í leikskólann okkar.
Í þessum bæklingi má finna helstu upplýsingar um leikskólann og það starf sem þar fer fram.
Í lögum um leikskóla 12. gr. segir ,,Leikskólastjóri og það starfslið er annast uppeldi og menntun barna skal hafa menntun leikskólakennara.”
Leikskólastjóri er yfirmaður leikskóla og ber faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfsemi hans.
Leikskólastjóri er Margrét Ósk Hermannsdóttir í 85 % stöðu. Viðtalstími eftir samkomulagi.
Íris Þorsteinsdóttir– Sérkennsla
Ingibjörg Valdimarsdóttir – Leiðbeinandi A (hefur lokið leikskólaliða námi hjá Símey)
Síssa Eyfjörð Jónsdóttir – Leikskólakennari
Emilía Bela– Leiðbeinandi
Heiða Elín Aðalsteinsdóttir - Tómstunda og félagsmálafræðingur
Monika Potarzycka - Leiðbeinandi
Ólöf Tryggvadóttir - Leikskólakennari afleysing
Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu.
Leikskólinn opnar kl. 07:45 og lokar kl. 16:00 og er fyrir börn frá 12 mán. aldri til 6 ára. Sótt er um leikskóladvöl á þar til gerðu eyðublaði og ósk um upphaf og lengd dvalar tilgreind. Ekki er alltaf hægt að koma til móts við allar óskir foreldra, hvorki um upphaf né lengd dvalar og því ágætt að ráðfæra sig við leikskólastjóra.
Leikskólagjöld ber að greiða fyrirfram fyrir 15. hvers mánaðar og eru þau innheimt með heimsendum gíróseðlum. Séu gjöldin ekki greidd í þrjá mánuði, er Grýtubakkahreppi heimilt að segja upp plássi barnsins.
Uppsagnarfrestur á leikskólaplássi er einn mánuður og miðast hann við mánaðarmót eða 15. hvers mánaðar. Skal uppsögninni komið til leikskólastjóra á þar til gerðu eyðublaði sem fæst í leikskólanum.
Foreldrar geta óskað eftir breytingum á dvalartíma barna sinna, hvort heldur sem er um styttingu eða lengingu að ræða og þarf að gera það skriflega. Reynt er að verða við þeim óskum sem fyrst og miða þær einnig við 1. eða 15. hvers mánaðar.
Það var árið 1983 að nokkrar kvenfélagskonur og mæður hér í sveit tóku sig saman og fóru þess á leit við hreppsnefnd Grýtubakkahrepps að opnaður yrði leikskóli á Grenivík. Hreppsnefndin, ekki alveg með hugann við tíðarandann tók ekki illa í þessa beiðni og sendi þær að skoða gamla sláturhúsið en það reyndist vera með eindæmum afleitur húsakostur.
Það varð úr að hluti af gömlu búðinni skyldi notaður fyrir leikskóla. Kvenfélagskonur unnu í sameiningu að því að breyta gömlu búðinni í leikskóla en Grýtubakkahreppur sá um kostnaðarhliðina. Unnið var dag og nótt við að rífa og smíða, pússa, mála og þrífa uns allt var orðið fínt. Lionsmenn smíðuðu svo dúkkurúm, skilrúm, stóra korktöflu og bræðurnir Jón og Danni smíðuðu rólur, vegasalt, sandkassa og tvö dúkkuhús. Auglýst var á búðarhurðinni eftir leikföngum í leikskólann og einnig voru keypt ný leikföng. Leikskólinn var opnaður þann 1. nóvember 1983 og var opinn til 28. apríl 2000 og hafði þá þjónað hlutverki sínu til fulls.
Eftir því sem tíminn leið og framfarir áttu sér líka stað hér á Grenivík þroskaðist og braggaðist hreppsnefndin og breyttist í sveitarstjórn. Sveitarstjórnin fylgdist vel með tíðarandanum og stóð ágætlega að verki þegar Krummafótur, nýr leikskóli fyrir börn frá 2 til 6 ára, var opnaður 2. maí 2000.
Frá haustinu 2007 hefur leikskólinn tekið inn börn frá eins árs aldri svo framarlega að það séu laus rými og nægt starfsfólk.
Þegar barn byrjar í leikskóla er það stór stund í lífi bæði þess og foreldranna. Allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að aðlögun í upphafi. Hvernig til tekst í upphafi getur haft áhrif á alla leikskólagöngu barnsins.
Að byrja í leikskóla hefur í för með sér ýmsar breytingar fyrir barnið. Það þarf að aðlagast nýju umhverfi, nýju fólki, læra að vera í hóp og fara eftir reglum og fleira. Aðlögunartímabilið er góður tími fyrir barn og foreldra að kynnast starfsfólki leikskólans og starfsemi hans.
Í dag er ríkjandi hugmynd innan leikskólafræðanna að leikskólinn sé ekki staðgengill heimilisins og starfsfólkið þar af leiðandi ekki staðgenglar foreldra. Leikskólinn er samfélag þar sem fullorðnir og börn byggja upp þekkingu saman, staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er hin nýja aðlögun sem nefnd hefur verið þátttökuaðlögun.
Þátttökuaðlögun
Leikskólinn er samfélag þar sem börn og fullorðnir byggja upp þekkingu saman og staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er þátttökuaðlögunin. Hún byggist á því að ekki er verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur er það að læra að vera í nýjum aðstæðum.
Þátttökuaðlögun byggir m.a. á þeirri trú að foreldrar yfirfæri eigin öryggiskennd og forvitni í þessum nýju aðstæðum á börnin sín. Með því að foreldrar séu þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það nám sem fram fer i leikskólanum. Þeir kynnast kennurunum, öðrum börnum og foreldrum. Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli aðlögunar er Öruggir foreldrar = örugg börn
Þátttökuaðlögun byggir á að foreldrar eru með börnum sínum í þrjá daga t.d.:
Dagur 1 frá kl: 9.00 -11.00
Dagur 2 frá kl: 9:00 – fram undir hádegi
Dagur 3 frá kl: 9:00 – fram yfir hádegi
Foreldrar eru inni á deild með börnum sínum allan tímann. Foreldrar sinna börnum sínum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar. Kennararnir eru virkir þátttakendur í aðlöguninni, þeir skipuleggja daginn og útdeila verkefnum.
Á fjórða degi koma börnin á sínum tíma um morguninn og kveðja foreldrana fljótlega ef allt hefur gengið að óskum, annars er hver aðlögun einstök og gæti tekið lengri tíma.
* Að barnið sýni starfsfólki það traust að leita til þeirra eftir stuðningi og aðstoð.
* Að barn og foreldri öðlist jákvæða mynd af leikskólanum og því starfi sem þar fer fram.
* Að traust skapist milli foreldra og starfsfólks í upphafi leikskólagöngunnar.
ü Að barninu líði vel í leikskólanum, finni þar hlýju og öryggi.
ü Að efla frumkvæði barnsins og sjálfshjálp, að það hafi trú á eigin getu.
ü Að búa barninu öruggt, hvetjandi og skapandi umhverfi í leik og starfi og gefa því tækifæri á að læra af eigin reynslu og með því að uppgötva sjálft.
ü Að börn og starfsfólk rækti með sér tillitssemi, mannkærleik, virðingu og aga.
ü Að starfsemi leikskólans efli alhliða þroska barnsins, í gegnum leikinn.
ü Að barnið þekki nánasta umhverfi sitt, sína heimabyggð. Að umhverfið hafi þýðingu og tilgang fyrir barnið og það geti fundið sig sem hluta af því. Barnið kynnist því sem náttúran hefur upp á að bjóða og lærir að umgangast hana af ábyrgðarkennd og virðingu.
Börn eru gullnáma, hlutverk fullorðinna er
að fá gullið til að glóa
Í Krummafæti er mikil áhersla lögð á frjálsan leik þar sem við teljum hann vera hið eðlilega tjáningarform barnsins, líf þess og starf.
Á bernskuárum er leikur lífstjáning barns, ríkjandi athöfn og mikilvægasta náms- og þroskaleið þess. Leikur er hornsteinn leikskólastarfsins og lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barnsins. Í leik lærir barn margt sem enginn getur kennt því, í honum felst mikið sjálfsnám og honum fylgir bæði gaman og alvara.
Hér velja börnin sér sjálf viðfangsefni og ganga svo frá eftir sig að leik loknum.
Í samverustundum gefst börnum og starfsfólki gott tækifæri til að eiga saman notalega stund í friði og ró. Þá er lesið, sungið, og spjallað um það sem vekur áhuga barnanna hverju sinni. Í samverustundum læra börnin að taka tillit til annarra og hafa hljótt. Þau læra að slaka á og njóta þess að hlusta á aðra, vera saman í rólegheitum.
Í hópastarfi starfa börn og kennarar saman í litlum hópum og læra þannig tillitssemi og að virða skoðanir annarra. Það hvað þau eru öll ólík og hafa mismunandi skoðanir en sameinast þó við að skapa/vinna saman, styrkir sjálfsmynd þeirra og fordómaleysi.
Í hópastarfinu er börnunum skipt í hópa eftir aldri. Í hverjum hóp eru 4-8 börn og einn hópstjóri. Á hverju hausti fá hóparnir nafn eftir því sem þeir vilja sjálfir og ákveðið þema sem er rauði þráðurinn í hópastarfi vetrarins. Hvað tekið er fyrir hverju sinni ræðst af hugmyndum kennarans og áhuga barnanna, því það er ferlið sem er mikilvægast, tíminn og aðferðirnar sem fara í verkið, ekki útkoman.
Farsæld felst ekki í því að gera frábæra hluti, heldur í því að gera hversdagslega hluti frábærlega vel
Aristóteles
Útivera er mikilvægur þáttur í uppeldisstarfi leikskólans, þar sem grófhreyfingum og frjálsum leik er gert hátt undir höfði.
Útivera er holl öllum heilbrigðum börnum. Íslenskt veðurfar getur verið umhleypingasamt og rysjótt, en við því er ekkert að gera. Þess vegna er íslenskum börnum hollt að venjast veðráttunni eins og hún er frá blautu barnsbeini.
Klæðnaður barna þarf alltaf að vera í samræmi við veðurfar og nauðsynlegt er að hafa aukafatnað og þann hlífðarfatnað til útiveru sem það hugsanlega þarf að nota hverju sinni. Mikilvægt er að merkja föt barnanna og í leikskólanum er hægt að fá eyðublað fyrir pöntun á mjög handhægum merkjaborðum til merkingar.
Foreldrar eru vinsamlega beðnir að taka upp úr töskum barna sinna að morgni þau föt sem áætluð eru þann daginn og einnig að gæta þess að taka með blaut eða skítug föt í dagslok.
Fatahólfin þarf að tæma á föstudögum.
Þorrablót
Á þorranum er haldið þorrablót í leikskólanum, þar sem börnin fá alíslenskan þorramat að borða.
Öskudagur
Á öskudaginn koma börnin í leikskólann í búningum. Við höldum öskudagsball og förum í fyrirtæki og syngjum sérvalin öskudagslög.
Grillveisla
Á hverju sumri er haldin grillveisla í boði foreldra-félagsins.
Sveitaferð
Í maí förum við í sveitina og skoðum gang lífsins hjá dýrunum.
Foreldrakaffi
Nokkrum sinnum á ári er foreldrum eða ömmum og öfum boðið í kaffi til okkar.
Afmæli
Börnin fá kórónur og er gert hátt undir höfði þann dag.
Jólaföndur/jólaball
Í desember er rólegt í leikskólanum, börn og starfsfólk hlusta á jólalög og skapa/föndra eitthvað er tengist jólunum. Jólaball er í leikskólanum rétt fyrir jól, þar birtist yfirleitt jólasveinn með eitthvað góðgæti og jafnvel litla gjöf.
Hjóladagar
Á sumrin eru haldnir ákveðnir hjóladagar, og mega börnin þá koma með hjólin sín í leikskólann.
Mikilvægt er að muna eftir hjálmum á hjóladögum.
Í barnahópi geta alltaf orðið óhöpp eða slys. Ef slíkt kemur fyrir er strax haft samband við foreldra sem fara þá með barnið á slysadeild ef þörf er á því.
Slys eru skráð á stöðluð blöð sem fengin eru hjá Slysavarnarfélagi Íslands, með því er hægt að fylgjast betur með því hvort slysagildrur leynist í leikskólanum.
Öll börn í Krummafæti eru tryggð á meðan þau dvelja þar.
Leikskólinn er með heimasíðu þar sem koma fram allar helstu upplýsingar um skólann. Reynt er að setja inn fréttir af starfinu reglulega og fylgja þá gjarnan myndir með. Í byrjun hvers mánaðar er foreldrum sent í tölvupósti dagatal hvar fram koma helstu upplýsingar þess mánaðar ásamt matseðli mánaðarins.
Fréttabréf kemur síðan út u.þ.b. tvisvar á ári þar sem koma fram hagnýtar upplýsingar um starfsemina almennt. Haldið er úti sérsakri fésbókarsíðu fyrir Krummafót þar sem settar eru inn helstu upplýsingar og tilkynningar.
Heimasíða Krummafótar: http://krummafotur.is
Fésbókarsíða Krumafótar: https://www.facebook.com/groups/257245977731633/
Nauðsynlegt er að tilkynna leikskólanum breytta hagi og aðstæður barnanna s.s. veikindi, fjarveru foreldra, námslok námsmanna og breytta hjúskaparstöðu.
Ef barnið vill ekki koma í leikskólann er nauðsynlegt að láta starfsfólk vita svo hægt sé að finna orsökina.
Óski foreldrar eftir að barn taki frí í leikskólanum, utan sumarleyfis, er það heimilt, en vistgjaldi barnsins verður ekki breytt.
Ef barn er fjarverandi frá leikskólanum 10 virka daga samfleytt dregst frá fæðiskostnaður.
Leikskólar eru ætlaðir frískum börnum. Veikist barnið skal það dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í a.m.k. 1-2 sólarhringa.
Skipulag í leikskólum gengur út á starf með frískum börnum og þar er ekki gert ráð fyrir starfsmanni til að sjá um barn sem ekki getur tekið þátt í daglegu starfi leikskólans.
Þegar barnið kemur aftur í leikskólann eftir veikindi á það að vera tilbúið til að taka þátt í öllu starfi leikskólans jafnt úti sem inni.
Ef um langvarandi eða síendurtekin veikindi er að ræða þar sem barn missir mjög mikið úr leikskólanum reynum við að koma til móts við barnið hvað varðar inniveru eftir þau veikindi svo framarlega að aðstæðurnar í skólanu leyfi slíkt. Sjálfsagt er að barnið fari síðast út og komi fyrst inn, þannig að útiveran er mjög stutt fyrstu dagana eftir veikindi.
Leikskólinn Krummafótur og Grenivíkurskóli standa saman að aðlögun elstu barna leikskólans að grunnskólanum. Í óktóber hefst skólastarf þar sem elsti árgangur leikskólans vinnur með börnum í 1. bekk Grenivíkurskóla. Börnunum eru kynnt hugtök og viðfangsefni grunnskólans. Einnig vinna þau að verkefnum í leikskólanum og er það liður í undirbúningi fyrir skólagönguna.
Samstarf leikskólans og grunnskólans er a.ö.l. með ágætum að því leiti sem það er hægt. T.d. hafa elstu tveir árgangarnir verið með í danskennslu á vorin og nokkrum sinnum höfum við tekið leikskýningu saman. Síðasta vika maímánaðar hefur verið með svipuðu sniði og stundum hafa elstu börn grunnskólans verið leikskólanum innan handar.
Í lögum um leikskóla skal meginmarkmið samstarfs heimilis og leikskóla vera:
“að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo þau fái notið bernsku sinnar. “
Mikilvægt er að góð samvinna ríki milli foreldra barnsins og starfsfólks leikskólans. Foreldrar eru helstu sérfræðingar barna sinna og með samvinnu allra aðila eru mestar líkur á að barninu líði vel.
Allir foreldrar eru boðaðir í foreldrasamtöl einu sinni á vetri, nema sérstök ástæða þyki til annars. Í þessum samtölum er m.a. rætt um upplifun og líðan barnsins í leikskólanum, þroska þess og hvernig því gengur í starfinu.
Foreldrar eru velkomnir í leikskólann til þess að taka þátt í því starfi sem þar fer fram. Þeir eru sérstaklega boðnir velkomnir í foreldrakaffi, foreldrafundi, uppákomur, ferðir o.fl.
Foreldrar þurfa ávallt að fylgja barninu alla leið í leikskólann og láta vita þegar það er sótt. Þetta er öryggisatriði bæði fyrir barnið, foreldrana og starfsfólkið.
Foreldrum er velkomið að hringja í leikskólann til að spyrja um barnið og eins mun starfsfólk hringja ef þörf krefur.
Leikskólar eru til barnanna vegna og ef áhugi foreldra er ekki til staðar þá þróast starfsemin aldrei á jákvæðan hátt.
Allir foreldrar barnanna í leikskólanum verða sjálfkrafa meðlimir foreldrafélags Krummafótar um leið og barn þess hefur leikskólagöngu sína. Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi og innheimt með gíróseðli tvisvar á ári Aðalfundur félagsins er haldinn seint að hausti ár hvert og þar er kosið í 3ja manna stjórn, auk tveggja varamanna.
Stjórn foreldrafélagsins 2019-2020 skipa Ingibjörg Valdimarsdóttir og Sigurður Gauti Benediktsson, Katrín Dröfn Haraldsdóttir og Hjalti Bergsteinsson, Margrét Ösp Stefánsdóttir og Viðar Júlíusson
Skipulagsdagar eru í leikskólanum tvisvar á ári, haustönn og vorönn. Þá er leikskólinn lokaður.
Á skipulagsdegi er starf leikskólans skipulagt og starfsfólkið fær tækifæri til að ræða um starfið og börnin í ró og næði. Einnig er einn námskeiðsdagur að vori sem nýtist annaðhvort til sameiginlegs vinnudags með öðrum leikskólum Eyjafjarðar eða til sérstaks vinnu/verkefnis Krummafótar.
Í samræmi við 11. og 12. grein laga um grunnskóla nr. 66/1995 og 4. grein leikskólalaga nr. 90/2008 fer fræðslu- og æskulýðsnefnd Grýtubakkahrepps með málefni grunn- og leikskóla sveitarfélagsins, samkvæmt lögum og reglugerðum um grunn- og leikskóla og samþykktum um stjórn og fundarsköp Grýtubakkahrepps.
Í fræðslu og æskulýðsnefndinni eru: Margrét Ösp Stefánsdóttir, Auður Adda Halldórsdóttir, Gunnar B. Pálsson, Haraldur Níelsson og Elín Jakobsdóttir
Auk þeirra sitja fundi skólastjórar grunnskólans og leikskólans, fulltrúi starfsmanna og fulltrúi foreldra hvors skóla ásamt sveitarstjóra.
Öllum sveitarfélögum er standa að rekstri leikskóla er skylt að sjá leikskóla fyrir ráðgjafarþjónustu. Við Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar starfar ráðgjafi vegna barna með þörf fyrir sérkennslu í leikskólum og annast hann ráðgjöf við sérkennslufólk og starfsfólk leikskólans varðandi sérkennslubörn. Grýtubakkahreppur hefur gert samning við Akureyrarbæ varðandi þessa þjónustu.
Ráðgjafi þessi heitir Elva Haraldsdóttir og er helsti samstarfsaðili okkar í Krummafæti varðandi sérkennslumál.
Einnig hefur Sesselja Sigurðardóttir leikskólaráðgjafi komið til okkar einu sinni á ári og gefið ráðgjöf varðandi börn og Erna Rós Ingvarsdóttir Verkefnastjóri leikskóla er okkur innan handar hvað varðar faglega ráðgjöf.
Leikskólinn Krummafótur starfar samkvæmt lögum fyrir leikskóla frá 2008 en í þeim segir að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu, fyrir börn undir skólaskyldualdri.
Í samræmi við þessi lög, að ósk foreldra annast leikskólinn uppeldi, umönnun og menntun barna þeirra á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks með velferð og hag barna sem leiðarljós í öllu starfi.
Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til en sveitarfélögin bera ábyrgð á starfsemi leikskólans s.s. húsnæði, búnaði, sérfræðiþjónustu ofl. Nefnd sem kjörin er af sveitarstjórninni fer með málefni leikskólans í umboði sveitarstjórnarinnnar. (Fræðslu og æskulýðsnefndin)
Ráðherra setur leikskólum aðalnámskrá þar sem fram koma helstu markmið leikskólastarfsins og uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans (sbr. 2. gr.) Auk umönnunar og menntunar skal búa börnunum hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði með áherslu á gildi leiksins í öllu starfi.
Skv. 2. grein laganna er meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla:
- að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
- að hlúa að börnum andlega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
- að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
- að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun
- að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.
Leikskólinn starfar samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna frá 1992 13. gr.
“Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum og ungmennum.
Hverjum, sem stöðu sinnar vegna hefur afskipti af málefnum barna og ungmenna og verður í starfa sínum var við óviðunandi misfellur á uppeldi og aðbúnaði barna eða ungmenna, er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.
Tilkynningarskylda gengur að þessu leyti framar ákvæðum laga um þagnarskyldu.“